Gili - Mt. Rinjani - Bali

Hæhæ
Eftir góða aflslöppun á Nusa Lembongan í 3 daga vorum við orðin eirðarlaus og til í eitthvað aðeins meira fjör :)
Við reyndum að fá bát beint til Gili eyja en það var svo dýrt og okkur gekk heldur ekki að fá ódýran bát beint til Padang Bai á Bali. Þeir buðu okkur reyndar far á pínkulitum fiskibát sem líkist frekar kanó en bát, við afþökkuðum það og tókum bát aftur til Sanur á Bali. Þaðan tókum við svo taxa til Padang Bai með það í huga að koma okkur til Gili Trawanga. Við komum þangað aðeins of seint og náðum ekki hraðbátnum til Gili. Þannig við gistum eina nótt í Padang Bai. Þegar við sátum á hostelinu að spjalla labbar danskt par inn sem vildi svo skemmtilega til að eru vinir Fríðu og Morten. Við fórum með þeim útað borða og í nokkra drykki um kvöldið. Við fórum á roslaega góðan veitingastað sem bauð upp á kartöflur :) og ekki nóg með það heldur kartöflumús :) nammnamm!!
Við lentum svo á Gili um hádegi næsta dag. Funduð okkur ágætis hostel við ströndina og höfðum það rosalega gott :) Síðan var komið að örlagaríkri ákvörðun :)

Gummi lenti á spjalli við kall á ferðaskrifstofu með það í huga að klífa Mt. Tambora sem er á eyjunni Sumbawa við hliðina á GIli. Þar varð stærsta sprengigos sem hefur orðið og jarðfræðiáhugamaðurinn hafði mikinn áhuga á að skoða það. Því miður er ekki boðið upp á ferðir þangað og því talsvert flókið að fara, auk þess sem kallarnir sögðu að það væri ekkert spes að labba upp á það fjall. Kallinn á ferðaskrifstofunni sýndi Gumma svo myndir af Mt. RInjani sem er 3726m hátt eldfjall á eyjunni Lombok. Hann var ekki lengi að sannfæra Gumma um að það væri mjög fallegt þar og góð hugmynd að fara í 3 daga göngu upp á fjallið þar sem gist væri báðar næturnar í tjöldum í 2600 og 2700m hæð. (þess má geta að Hvannadalshnjúkur hæsti tindur Íslands er um 2100m). Ég var sjálf orðin leið á allri þessari afslöppun og ákvað að slá til og fara með í þessa spennandi ferð :)

Mt. Rinjani séð frá Gili morgunin sem við lögðum í hann.
Við vöknuðum eldsnemma til þess að ná fyrsta bát frá Gili yfir til Lombok. Ég vaknaði reyndar með slappleika og hálsbólgu og var óviss hvort ég kæmist af stað í gönguna en ég ákvað að koma mér allavega yfir á rétta eyju til þess að byrja með. Okkur var bókstaflega troðið í pínulítinn bát með FULLT af fólki og við tók hálftíma sigling þar sem ég var viss um að báturinn myndi sökkva. Það gerðist þó ekki og við komumst heil með þurran farangur til Lombok. Því næst tók við 1,5 klst löng bílferð og þar ákvað ég að fara bara með í gönguna þrátt fyrir slappleika. Við keyrðum upp í 600m hæð skyldum stóru töskurnar eftir og lögðum af stað.

Í bátnum til Lombok :)

Fyrsta daginn var gengið úr 600m hæð upp í 2600m. Gangan tók um 7 klst og var að mínu mati mjög erfið. Og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá var ég alveg buguð eftir daginn.. Gummi bar sig betur :) Við fengum svo kvöldmat um leið og  við komum í búðirnar og eftir að Gummi var búin að hughreysta mig og telja mér trú um að ég gæti labbað í 2 daga í viðbót fórum við að sofa. Vöknuðum samt oft um nóttina því það var mjög hart að liggja í tjaldinu og ÍSKALT!

Dagur 1

Fyrri tjaldbúðirnar 2600m.
Á degi 2 vöknuðum við kl 6. Fengum bananapönnukökur í morgunmat og lögðum í hann upp að gígnum. Það reif mjög fljótlega í lærin mín að labba um morgunin en ég gleymdi því um leið og við komum að gígnum. VÁ!! hrikalega flott. Læt myndirnar tala sínu máli.


Eftir miklar myndatökur fyrir ofan gíginn var haldið niður að vatninu. niður í 2000m hæð. Fengum hádegismat þar og svo var haldið aftur upp á við í næstu búðir (2700m).

Hetjurnar að elda fyrir okkur hádegismat. Þeir labba með allan matinn, tjöldin, dýnurnar, vatnið ofl upp alla þessa leið ca 2 í viku ýmist berfættir eða á flip flops inniskóm :(

Gangan upp að búðunum var hrikalega erfið. Það var alveg þverhnípt upp og við þurftum að klifra í klettum og reyna sem minnst að horfa niður :/. Á leiðinni að búðunum komum við að konu sem hafði dottið niður 50m um morgunin. Hún var að öllum líkindum mjaðmabrotin og sennilega fleiri bein. Gat sig ekki hreyft og beið þess að fá þyrlu til þess að flytja sig niður. Það gekk þó ekki upp og hún þurfti að bíða í 10klst þarna í hlíðinni eftur mönnum til þess að bera hana upp að búðunum sem við vorum í. Þar gisti hún um nóttina og hélt að það kæmi þyrla að ná í sig næsta morgun. Það gekk þó heldur ekki og þegar við vorum að fara niður á 3 degi var verið að bera hana niður á bambusbörum. (ca 8-10klst ferð fyrir hana). Mölbrotin og einu verkjalyfin voru töflur frá öðrum göngugörpum :( .

Seinni búðirnar.
Á degi þrjú (eða reyndar um nótt 2:30) voru þeir ræstir sem ætluðu að labba á toppinn. Ég átti ekki mikla orku eftir í fótunum eftir tvo langa göngudaga á undann og ákvað að reyna ekki við toppinn.  Gummi hetja fór að sjálfsögðu alla leið upp.

Hetjan mín kominn á topinn :)
Það tók svo 6 klst að fara niður í byggð frá búðunum. Við erum bæði sammála að þetta er það erifðasta sem við höfum gert. Við kláruðum alla þá orku sem við áttum og fæturnir á okkur voru þaktir blöðrum, bólgum, sárum og mari. Nokkrum dögum síðar missti ég svo tvær táneglur, þannig þetta var ekkert gefins :)
Samt sem áður var þetta algjört ævintýri og algjörlega þess virði :)
VIð gistum eina nótt á Lombok eftir gönguna og fórum svo aftur til Kuta Beach á Bali þar sem við erum ekki búin að gera neitt í 4 daga. Bara reyna að jafna okkur. Við erum enn hálf slöpp og illt í fótunum.
Í dag er síðasti dagurinn okkar í Asíu við leggjum af stað til Sydney í kvöld :) fljúgum til SIngapore og þaðan tökum við næturflug til Sydney :) Þannig næstu fréttir verða frá nýrri heimsálfu :)
VIð sendum knús og kossa á alla heima :*

Fært undir Óflokkað. 5 ummæli »

Kuala Lumpur - Singapore - Kuta Beach - Nusa Lembongan

Hæhæ

Eftir mjög skemmtilega daga í Víetnam var komið að því að fljúga til Kuala Lumpur í Malasíu. Við áttum flug þaðan til SIngapore því planið var að byrja í Vietnam og enda á að fara niður Thailand til Kuala Lumpur landleiðina. Það plan var löngu orðið úrelt en við ákvaðum að halda fluginu okkar frá Kuala Lumpur þrátt fyrir það. Breyta bara dagsetningunni. VIð sjáum ekki eftir því. Það var rosalega gaman að koma til Kuala Lumpur, mjög vestræn borg, mikið af háhýsum og alveg slatti að sjá :) Við komum seint um kvöld og fundum okkur hótel í Chinatown sem var frekar dýrt með engu inniföldu en við vorum þar allar 3 næturnar. (Dýrt á Asískan mælikvarða ca 2000kr á mann). Næsta dag vorum við ekta túristar og tókum rúnt um borgina með hop on hop off rútu. Þannig fengum við að sjá allt það helsta á stuttum tíma. Enduðum daginn í risa stóru og rosalega flottu molli í tvíburaturnunum. Um kvöldið fórum svo upp i sjónvarpsturnin og horfðum yfir borgina í myrkri sem var mjög fallegt.

 


Næsta dag hittum við svo Fríðu og Morten :) Þau eru búin að vera að ferðast um Asíu í tæpa 3 mánuði og loksins vorum við á sama stað :) VIð eyddum deginum með þeim, röltum um borgina og borðuðum rosalega góðan street food. Um kvöldið fengum við svo að vita að við gætum ekki stoppað yfir nótt í Singapore vegna einhverra leiðinda hjá rountheworldflights. (sem var reyndar gott fyrir budduna því það er mjög dýrt þar) En í staðinn vorum við þar í einn dag og fórum svo til Bali um kvöldið.

Flugvöllurinn í Singapore hlítur að vera sá besti í heimi. Það er svo gaman þar að manni finnst leiðinlegt þegar það er komið að bording (ólíkt öllum öðrum flugvöllum). Þar er öll afþreying sem hugsast getur og nánast allt frítt. Getur m.a farið í ræktina, skoðað grasagarða, verið í leikjatölvum, horft á sjónvarp, farið í Bíó, farið í sund, verið á internetinu, borðað á góðum veitingastöðum, rölt um allskyns búðir og svo margt fl. Svo bjóða þeir líka upp á fría útsýnisferðir um borgina með rútu og fararstjóra. Þar sem við höfðum allan daginn skelltum við okkur í svoleiðis ferð :) Mjög gaman og smá sárabót að fá að sjá þessa hreinu og fallegu borg. VIð erum harðákveðin í að koma þangað aftur þegar við erum orðin rík og gista á geggjuðu hóteli sem er með 150m sundlaug á toppnum.
Þegar við komum svo aftur á flugvöllinn hljóp Gummi beint í Fifa í PS3 og ég rölti um í fallegum búðum :)

Fyrir utan kínverskt hof í Singapore. Hér sést nýji hárliturinn :)

Flugvöllurinn :)
Við komum svo til Bali að kvöldi 6 Apríl. Fundum okkur hótel á ágætisstað með góðri sundlaug á Kuta Beach :) Daginn eftir ákvaðum við að kíkja á ströndina. Á leiðinni var togað og kallað úr öllum áttum til þess að fá okkur til þess að kaupa hitt og þetta. Þegar við svo loksins komum á ströndina batnaði það ekki. Á 2 mínútna fresti var fólk að bjóða upp á ýmsar vörur og þjónustu. Snyrtidömurnar byrjuðu að klippa neglurnar og Gumma og suða í mér að fá að naglalakka mig, nuddkonurnar byrjuðu að nudda mann alveg óumbeðnar til þess að lokka mann í nudd. VIð enduðum á að kaupa ís og fengum bæði hand og fótsnyrtingu.


Öldurnar þarna voru rosalegar og gaman að fylgjast með surf fólkinu sem sýndi listir sínar. Gummi reyndi einnig að surfa en það gekk ekki alveg nógu vel. Mun auðveldara en það sýnist :) Til þess að gera langa sögu stutta þá nenntum við ekki aftur á þessa strönd og eyddum næstu tveimur dögum í sundlaugargarðinum á hótelinu okkar :)
Fríða og Morten komu svo á mánudagskvöldinu og leyst álíka illa á þennan stað og okkur þannig við pökkuðum niður og redduðum okkur bátsfari á næstu eyju sem heitir Nusa Lembongan. Hér búa bara 2000 manns og allt er rosalega rólegt og notalegt. Við gistum á hosteli sem er alveg við ströndina og er með góðri sundlaug :) (semsagt allt sem þarf). Daginn eftir við komum fórum við að snorkla með Manta Ray risa skötum sem var eitt það magnaðasta sem við höfum gert. Þetta eru risa fiskar og þegar þeir synda er eins og þeir fljúgi í sjónum. Kaldur ólgusjórinn gerði reynsluna líka enn magnaðari. Blanda af köldum sjó, stórum öldum og slatti af adrenalíni gerði það að verkum að það var erfitt að anda fyrstu mínúturnar en hetjurnar voru fljótar að venjast því :)

Seinni partinn þegar við vorum búin að liggja við sundlaugina frá hádegi ákvað ég að kíkja á netið og komst að því að það varð risaskjálfti í Norður Indónesíu og flóðbylgjuviðvörun hafði verið gefin út fyrir allt Indlandshaf. Við tóku nokkrir tímar af smá panik. En sem betur fer kom engin flóðbylgja og áður en við fórum að sofa var búið að afturkalla viðvörunina. Þannig þetta endaði allt vel :)

Nusa Lembongan

Höfðum það gott þarna uppi þegar við vorum þreytt á sólbaðinu :)

Sunglaugagarðurinn um kvöld :)

Seinni daginn okkar á Nusa gerðum við svo ekkert nema tana og hafa það gott :)
Í dag ætlu við svo að koma okkur aftur til Bali og annað hvort skoða okkur um þar eða skella okkur beint á einhverja aðra eyju :)
Eigum 10 daga eftir í Indonesíu áður en vestræni heimurinn tekur fagnandi á móti okkur í SYDNEY :D
Knús heim :*

Fært undir Óflokkað. 5 ummæli »

Víetnam

Hæ Hó

Þá er loksins smá tími til þess að skrifa eitt stykki blogg :) síðustu dagar/vikur hafa verið hrikalega busy. Fórum hratt yfir mikið og merkilegt land þannig það var hver mínúta nýtt :)

Þegar við vorum búin að jafna okkur eftir ferðalagið frá Laos og sleppa lifandi úr hrikalegri umferð í Hanoi þar sem mótorhjól eru á hverju strái skelltum við okkur í 3 daga bátsferð til Halong Bay. Sem er 2000 eyja eyjaklasi í Norður Víetnam. Skyggnið var frekar lélegt eins og nánast allstaðar í Víetnam vegna þoku og mengunar. Mengunin er svo mikil að það sést  varla í bláan himinn og fæstir fara út án þess að vera með grímu/maska :( Þetta er samt rosalega fallegur staður en ekki nálægt því eins fallegur og myndir sem við höfðum séð með tærum bláum sjó og sólskyni :) Það var frekar kalt í veðri (20 gráður) semsagt peysuveður fyrir fólk sem er búið að vera of lengi í yfir 30 gráðum. Við kynntumst skemmtilegu fólki í ferðinni og höfðum það rosalega gott. Gistum í flottu herbergi í bátnum og á Hóteli og stærstu eyjunni á Halong Bay. Skoðuðum flotta hella og fórum í eina fjallgöngu í þjóðgarði á Cat Ba island. Gædinn okkar var reyndar með þeim verri sem við höfum fengið en við létum það ekki skemma fyrir okkur :)

Halong Bay í mengunar og þokumystri. Samt sem áður rosalega fallegt :)

Floating Village á Halong Bay. Magnað að fólk lifi svona allt árið.

Komin upp á topp á fjalli í CatBa island þjóðgarðinum :) Fallegt útsýni en mikið mystur.

Eftir 4 tíma keyrslu frá Halong Bay aftur til Hanoi tók við 14 tíma næturrútuferð til Hué í miðju Víetnam. VIð stoppuðum þar í nokkra tíma áður en við fórum í 5 tíma rútuferð til Hoi An. Sennilega versta rúta ferðarinnar, engin loftkæling og svefnbekkir í stað sæta (um miðjan dag) Þegar við vorum komin til Hoi An var hitastigið orðið betra fyrir kuldaskræfur :) vel heitt sólin náði að skýna í gegnum mengunina og bærinn algjörlega æðislegur. Lítill og notalegur fullur af saumastofum og góðum veitingastöðum. Klárlega einn af okkar uppáhaldsstöðum í ferðinni hingað til :) Gummi lét sauma á sig 4 skyrtur og ég 3 kjóla :) Við leigðum okkur tvisvar mótorhjól og keyrðum um Hoi An og nánasta umhverfi. Fórum einu sinni á ströndina og höfðum það rosalega gott í þessa 4 daga :)

Eftir allar rútuferðirnar vorum við harðákveðin í að taka frekar lestina niður til Saigon. En hún var því miður fullbókuð þegar við vildum fara og því ákváðum við að vera flott á því og taka flugið :) Sem var algjör lúxus og kærkomið eftir allar rúturnar :)

Frá Saigon (Ho Chi Minh City) fórum við í dagsferð til Mekong Delta í suður Víetnam og fengum að kynnast innfæddum og þeirra venjum og siðum. Skoðuðum meðal annars Býflugnabýli þar sem við fengum rosalega gott te með fersku hunangi og homemade snickers :) Einnig fórum við í Coconut candy verksmiðju og fengum besta nammi sem til er  :) Enduðum á að fara frá Mekong Delta með fullan poka af ýmsu góðgæti :)

Fengum far á svona bát í Mekong Delta :)

Coconut Candy verksmiðjan :) NAMMM!!
Daginn eftir fórum við svo að skoða Cu CHi göngin. Sem er var rosalega áhugaverður dagur. Víetnamar bjuggu göngin til í stríðinu til þess að fela sig fyrir bandaríkjamönnum. Göngin eru 121 km að lengd og ef ég man rétt allt að 20 metra djúp á 3 hæðum. Þau voru gerð rosalega þröng svo bandarískir hermenn ættu erfitt með að koma sér ofan í göngin og ferðast um þau. Það voru einnig gildrur í göngunum og öðru hverju höfðu þeir göngin mjög þröng til að varna því að bandaríkjamenn kæmust lengra. Það voru svefnherbergi, eldhús, vinnustofur og aðgangur að vatni (Mekong River) í göngunum. Hvert einasta atriði útpælt og allt gert í höndunum. Ég gæti sagt endalaust frá þessu stríði og þessum göngum en læt það kjurrt liggja. Áhugasamir geta fengið sögustund í júní :) Já svo skutum við líka úr AK 47 hríðskotabyssu :) og á meðan við vorum ofan í göngunum og að skoða allt í kring voru aðrir að skjóta úr byssunum þannig það voru háir skothvellir nánast allan daginn sem gerði þetta enn raunverulegra.

Gummi á leið ofan í upprunalegu leiðina ofan í göngin :) Pínulítil hola

Hrikalega þröngt. Samt búið að víkka og hækka þennan part af göngunum fyrir feita túrista.

Skotið úr AK 47

Svalur :)

Þegar við komum tilbaka frá göngunum fórum við í War Museum og fengum að sjá myndir af stríðinu og hrikalegum afleiðingum þess. Þessi dagur var rosalega átakanlegur en kveikti aftur á móti svakalegan áhuga á því sem var í gangi þarna fyrir svo stuttu síðan. Þannig núna ligg ég á google og er búin að kaupa bók um stríðið.

Alvarlegar afleiðingar efnavopna Bandaríkahers. Þetta var skársta myndin :( Enn í dag eru börn að fæðast mj0g fötluð í Víetnam.

Eftir Saigon flugum við til Kuala Lumpur í Malasíu tókum sutt 3 daga stopp þar. Vorum svo einn dag í Singapore og erum núna komin til Bali í Indonesiu :) Nánar um það í næsta bloggi :)
Við erum svo loksins búin að bóka flug til Íslands sem kostaði hálfan handlegg en við lendum 4 Júní :) Mjög mikill spenningur en samt blendnar tilfinningar að þessi draumaferð verði búin eftir aðeins 2 mánuði..

Knús og kossar :*

Fært undir Óflokkað. 8 ummæli »